Fara í efni

Ljósanótt verði plastlaus hátíð

Mannfjöldi á Ljósanótt
Mannfjöldi á Ljósanótt

Undirbúningur fyrir Ljósanótt er löngu hafinn og margir viðburðir nú þegar komnir í vinnslu.  Dagskráin verður hefðbundin að því leyti að allir stærstu og vinsælustu viðburðirnir verða á sínum stað og tíma en að auki verða nokkrir nýir viðburðir í höndum ýmissa aðila. Í ár er nefnilega tvöfalt afmælisár, haldið er upp á 20 ára afmæli Ljósanætur og 25 ára afmæli Reykjanesbæjar og af því tilefni mun Sinfóníuhjómsveit Íslands t.d. vera með tónleika í Stapanum á þriðjudagskvöldinu 3. september. Einnig hafa verið auglýstir styrkir til umsóknar fyrir bæjarbúa sem vilja setja upp eigin viðburði, gestum og íbúum til skemmtunar.

Virðing fyrir umhverfinu eykst sem betur fer með hverju árinu og nú er svo komið að stefnt er að því að halda „Plastlausa Ljósanótt“ árið 2019. Undirbúningsnefndin hefur verið í sambandi við flesta stóru hagsmunaðilana sem allir hafa lýst vilja til að virða þessa stefnu og nú verður spennandi að sjá hvernig til tekst. Hér með er þessari ósk um „Plastlausa Ljósanótt“ komið á framfæri og öllum þeim sem hyggjast koma að viðburðum, sölu eða öðru á Ljósanótt, bent á að taka þarf tillit til „Plastlausrar Ljósanætur“, segir í tilkynningu frá Reykjanesbæ.