Hagnýtar upplýsingar
Framkvæmd Ljósanætur
Reykjanesbær hefur umsjón með hátíðinni en verkefnastjóri Ljósanætur er Guðlaug María Lewis, verkefnastjóri menningarmála, netfang gudlaug.m.lewis@reykjanesbaer.is.
Allar upplýsingar um Ljósanótt eru veittar í gegnum netfangið ljosanott@ljosanott.is, í Ráðhúsi Reykjanesbæjar í síma 421 6700 og í upplýsingasíma Ljósanætur 891 9101 sem starfræktur verður Ljósanæturhelgina.
Upplýsingasími á hátíðarhelgi
Upplýsingasími Ljósanætur sem starfræktur er á hátíðarhelginni er 891-9101. Gott ráð er að skrifa gsm númer á handabak ungra barna ef þau skyldu verða viðskila.
Dagskrárviðburðir á Ljósanótt
Dagskrá er birt á vefnum ljosanott.is jafnóðum og hún tekur á sig mynd og þurfa allir þátttakendur að skrá sína viðburði beint inn á vefinn. Undir flipann "Skrá viðburð" eru settar inn viðeigandi upplýsingar og mynd. Viðburðurinn bíður þar samþykktar og er birtur að yfirferð lokinni. Öll dagskrá er birt með fyrirvara um breytingar.
Leigubílar
Söfnunarstaður leigubifreiða á laugardag og aðfararnótt sunnudags er við Tjarnargötutorg (Tjarnargötu 12).
Bílastæði
Bent er á bílastæði neðan Hafnargötu við Ægisgötu og við Tjarnargötu 12 en þar eru sérmerkt bílastæði fyrir fatlaða.
Geymum hundinn heima
Hundar eru bannaðir á hátíðarsvæði á laugardegi Ljósanætur. Gerum ráðstafanir til verndar dýrum á meðan flugeldasýningunni stendur.
Drónaflug
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur gefið út tilmæli um að flug hvers kyns ómannaðra loftfara eða flygilda, svonefndra dróna, verði ekki yfir byggð eða þar sem mannfjöldi er samankominn á Ljósanæturhátíð í Reykjanesbæ.
Bent er á að ákveðnar reglur gildi um loftför hér á landi. Þó ekki sé sérstaklega fjallað um dróna í lögum nr. 60/1998 um loftferðir sé þar engu að síður að finna ákvæði sem heimili ráðherra að takmarka eða banna loftferðir almennt eða að hluta á íslensku yfirráðasvæði eða yfir því vegna almannaöryggis eða allsherjarreglu.
Einnig er vísað í lögreglulög nr. 90/1996 um hlutverk lögreglu við að tryggja öryggi borgaranna og að koma í veg fyrir að því sé raskað.
Göngum vel um bæinn
Ruslafötur eru staðsettar víða á hátíðarsvæði - göngum vel um bæinn okkar á Ljósanótt. Í ár verða tvenns konar ruslafötur sýnilegar á hátíðarsvæði sem gefur gestum kost á að flokka rusl. Einnig verða sérstök flösku- og dósasöfnunarílát á hátíðarsvæði.
Ljósanæturfánar
Hægt er að fá fyrirtækjafána á ljósastaura hjá Logoflex s. 577 7701. Merkiprent gerir annað markaðsefni og aðra fána sem og Plexigler.
Öryggi í fyrirrúmi á Ljósanótt
Til að tryggja öryggi og halda uppi gæslu á Ljósanótt hefur öryggisráð Ljósanætur útbúið nákvæma áætlun fyrir alla aðila er koma að öryggismálum á svæðinu. Öryggisráðið, sem samanstendur meðal annars af fulltrúum slökkviliðs og sjúkraflutninga, lögreglu og björgunarsveita, hefur yfirfarið öryggismál sem tengjast svæðinu og hátíðarhöldum á komandi Ljósanótt. Hugað hefur verið sérstaklega að skipulagi á svæðinu og hugsanlegum uppákomum, aðkomu lögreglu, slökkviliðs og sjúkrabíla og annarra viðbragðsaðila sem og verkþætti og viðbrögð þeirra.
Öryggisráð Ljósanætur minnir á öryggismiðstöð/upplýsingaþjónustu, þar sem fulltrúar frá slökkviliði og sjúkrahúsi eru í beinum samskiptum við alla viðbragðsaðila og er öryggismiðstöðin beintengd Lögreglu, Slökkviliði og Neyðarlínu.
Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja og Lögreglan verða með aukinn útkallsstyrk á tímabilinu 12 á hádegi og fram eftir nóttu.
Með notkun TETRA fjarskiptakerfisins verður beint samband við Neyðarlínu og samræmt fjarskiptasamband við viðbragðsaðila s.s. slökkvilið, lögreglu, Björgunarsveit Suðurnesja og sjúkrahús. Því verður hægt að virkja hópslysaáætlun með stuttum fyrirvara. Hlutverk viðbragðsaðila er víðtækt en skilgreint eins og kostur er. Þá er ákveðið að fulltrúar viðbragðsaðila mæti í Öryggismiðstöð á hádegi til að fínstilla verkþætti og yfirfara stöðu mála, prófa fjarskipti o.fl.
Björgunarsveitin Suðurnes verður með björgunarbátinn Njörð allan daginn, en báturinn verður mannaður köfurum í viðbragðsstöðu og er fulltrúi þeirra í beinu sambandi við Öryggismiðstöðina. Þá verður einnig gæsla á svæðinu og bílar á ferðinni.