Hagnýtar upplýsingar
Framkvæmd Ljósanætur
Reykjanesbær hefur umsjón með hátíðinni en verkefnastjóri Ljósanætur er Guðlaug María Lewis, menningarfulltrúi, netfang gudlaug.m.lewis@reykjanesbaer.is.
Allar upplýsingar um Ljósanótt eru veittar í gegnum netfangið ljosanott@ljosanott.is, í Ráðhúsi Reykjanesbæjar í síma 421 6700 og í upplýsingasíma Ljósanætur 891 9101 sem starfræktur verður Ljósanæturhelgina.
Upplýsingasími á hátíðarhelgi
Upplýsingasími Ljósanætur sem starfræktur er á hátíðarhelginni er 891-9101.
Gott ráð er að skrifa gsm númer á handabak ungra barna ef þau skyldu verða viðskila.
Dagskrárviðburðir á Ljósanótt
Dagskrá er birt á vefnum ljosanott.is jafnóðum og hún tekur á sig mynd og þurfa allir þátttakendur að skrá sína viðburði beint inn á vefinn. Undir flipann "Skrá viðburð" eru settar inn viðeigandi upplýsingar og mynd. Viðburðurinn bíður þar samþykktar og er birtur að yfirferð lokinni. Öll dagskrá er birt með fyrirvara um breytingar.
Stæði fyrir húsbíla og ferðavagna
Verða á tveimur stöðum, annars vegar á malarvellinum við íþróttasvæði Keflavíkur við Hringbraut og hins vegar verður hægt að koma sér fyrir á grasflöt norðan við hátíðarsvæðið í nágrenni við smábótahöfnina í Gróf en þar er aðeins boðið upp á salerni (ekki rennandi vatn og ekki rafmagn). Stæðin á malarvellinum við Hringbraut eru opin frá kl. 16 á fimmtudegi. Þar er boðið upp á rafmagn og kalt rennandi vatn. Gjaldtaka fyrir húsbíla/ferðavagna er á malarvellinum.
Verð:
- kr. 1500 fyrir fullorðinn per nótt.
- Frítt fyrir 14 ára og yngri
- Rafmagn kr. 1000.-
Losun ferðasalerna er í Skólpdælustöðinni við Fitjabraut 1a.
Minnt er á leiðbeiningar Mannvirkjastofnunar um brunavarnir á tjaldsvæðum sem sjá má hér.
Ljósanæturstrætó
Notum strætó á Ljósanótt. Hér má finna allar upplýsingar um Ljósanæturstrætó.
Leigubílar
Söfnunarstaður leigubifreiða á laugardag og aðfararnótt sunnudags er við Tjarnargötutorg (Tjarnargötu 12).
Bílastæði
Bent er á bílastæði neðan Hafnargötu við Ægisgötu og við Tjarnargötu 12 en þar eru sérmerkt bílastæði fyrir fatlaða.
Lokanir gatna
Takmarkanir verða á umferð gatna við hátíðarsvæði frá föstudagsmorgni, laugardag og sunnudag. Hér má sjá kort með upplýsingum um lokun gatna.
Salerni
Salerni verða staðsett við Öryggismiðstöð Ljósanætur á Norðfjörðsgötu. Einnig eru salerni á tjaldsvæðum á malarvellinum við Hringbraut og í Gróf.
Geymum hundinn heima
Hundar eru bannaðir á hátíðarsvæði á laugardegi Ljósanætur. Gerum ráðstafanir til verndar dýrum á meðan flugeldasýningunni stendur.
Drónaflug
Óheimilt er að fljúga fjarstýrðu loftfari yfir mannfjölda.
Fylgja skal fyrirmælum, takmörkunum og banni flugumferðarþjónustu, lögreglu, Landhelgisgæslunnar, Samgöngustofu sem og annarra yfirvalda um flug fjarstýrðra loftfara á tilteknum svæðum.
Í tilefni af Ljósanæturhátíð í Reykjanesbæ árið 2022 þykir lögreglustjóranum á Suðurnesjum rétt að vekja athygli á ofangreindri bannreglu.
Sjá til hliðsjónar 12. gr. reglugerðar nr. 990/2017, um starfrækslu fjarstýrðra loftfara.
Göngum vel um bæinn
Flokkunartunnur eru staðsettar víða á hátíðarsvæði - göngum vel um bæinn okkar á Ljósanótt.
Ljósanæturfánar
Hægt er að panta Ljósanæturfána hjá Merkiprent.
Öryggi í fyrirrúmi á Ljósanótt
Til að tryggja öryggi og halda uppi gæslu á Ljósanótt hefur öryggisráð Ljósanætur útbúið nákvæma áætlun fyrir alla aðila er koma að öryggismálum á svæðinu. Öryggisnefnd, sem samanstendur meðal annars af fulltrúum slökkviliðs og sjúkraflutninga, lögreglu og björgunarsveita, hefur yfirfarið öryggismál sem tengjast svæðinu og hátíðarhöldum á komandi Ljósanótt. Hugað hefur verið sérstaklega að skipulagi á svæðinu og hugsanlegum uppákomum, aðkomu lögreglu, slökkviliðs og sjúkrabíla og annarra viðbragðsaðila sem og verkþætti og viðbrögð þeirra.