Fara í efni

Um Ljósanótt

Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð Reykjanesbæjar, var haldin í fyrsta sinn 2. september árið 2000 og var framlag Reykjanesbæjar til Reykjavíkur, menningarborgar árið 2000. Hátíðin var tileinkuð lýsingu á sjávarhömrum „Bergsins“ og dregur nafn sitt af þeim viðburði en ljósaverkið var unnið eftir hugmynd Steinþórs Jónssonar þáverandi bæjarfulltrúa og fyrsta formanns Ljósanæturnefndar.

Ljósanótt er haldin fyrstu helgina í september ár hvert og er áhersla lögð á viðamiklar uppákomur frá fimmtudegi til sunnudags þótt hátíðin teygi stundum anga sína út fyrir þann ramma. Hámarki nær hún ávallt á laugardagskvöldi með stórtónleikum á útisviði, lýsingu Bergsins og glæsilegri flugeldasýningu. Hátíðin fer fram þá helgi þar sem fyrsta laugardag ber upp í september.

Menningaráhersla er aðalsmerki hátíðarinnar og hafa tónlist og myndlist jafnan verið þar í fararbroddi enda bærinn annálaður tónlistarbær.

Reykjanesbær skapar hátíðinni umgjörð og stendur fyrir ýmsum föstum viðburðum en fjölbreytileika hátíðarinnar skapa þátttakendur sjálfir, þ.e. íbúar og gestir sem standa fyrir viðburðum, stórum jafnt sem smáum. Þátttaka almennings í viðburðahaldi hefur aukist jafnt og þétt og er það eitt af markmiðum hátíðarinnar að hún sé vettvangur fyrir fólk til að skapa og skemmta sér og öðrum.

Ýmsir fastir liðir einkenna hátíðina og má þar nefna setningarhátíð þar sem börnin í bæjarfélaginu eru í aðalhlutverki, opnanir nýrra listsýninga á vegum Listasafns Reykjanesbæjar og sýninga um allan bæ í kjölfarið, kjötsúpu Skólamatar, árgangagöngu, akstur glæsikerra, stórtónleika á útisviði, flugeldasýningar auk annars.

Reykjanesbær hefur umsjón með hátíðinni en verkefnastjóri hennar er Guðlaug María Lewis, verkefnastjóri menningarmála,  gudlaug.m.lewis@reykjanesbaer.is . Netfang Ljósanætur er ljosanott@ljosanott.is, símanúmer Ljósanætur er 421 6700.