Fara í efni

Heimatónleikar í Gamla bænum

Heimatónleikar á Ljósanótt í Reykjanesbæ.
Eftir tveggja ára hlé verða haldnir Heimatónleikar í Gamla bænum á Ljósanótt, föstudagskvöldið 2. september.
Búið er að ráða frábæra listamenn sem koma fram á nokkrum heimilum í Reykjanesbæ og spila fyrir almenning ýmist úti á palli eða inni í stofu gestgjafanna.
Tónleikarnir hefjast í öllum húsunum kl. 21.00 og verða endurteknir kl. 22.00. Fólk gengur á milli húsa og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi fyrir utan hvað það skapast alltaf skemmtileg stemning í húsunum.
Miðasala á tónleikana hefst föstudaginn 12. ágúst kl. 10.00 á Tix.is og armböndin verða afhent í Duus húsum frá fimmtudeginum 1.sept. til kl. 17.00 á tónleikadaginn. Eftir það afhendast miðarnir í Geimsteini, Skólavegi 12.
 
Listafólkið sem kemur fram í ár eru eftirfarandi:
Varla þarf að kynna tónlistarmanninn Páll Óskar eina skærustu poppstjörnu Íslands en hann kemur fram á Heimatónleikum í gamla bænum á Ljósanótt. Palli er er án efa einn mesti og besti skemmtikraftur landsins og á þessum heimatónleikum mun hann vera á ljúfu nótunum þar sem hann fer í gegnum ferilinn og syngur lögin sín við gítarundirleik snillingsins Ásgeirs Ásgeirssonar. Það er gaman að geta þess að Páll Óskar hóf ferilinn sem ungur drengur þegar hann söng sig inn í hjörtu landsmanna með laginu Blindi drengurinn af plötu Áhafnarinnar á Halastjörnunni sem tekin var upp í Geimsteini. Það lá því beint við og þótti við hæfi að hann kæmi fram á Skólavegi 12 á Heimatónleikum 2022 og hver veit nema hann skelli í Blinda drenginn.

Emmsjé Gauti er sviðsnafn rapparans Gauta Þeys Mássonar en hann er einn vinsælasti tónlistarmaður landsins um þessar mundir. Hann gaf út sitt fyrsta lag árið 2002 og fyrstu breiðskífuna 2011 og hefur gefið út alls 6 breiðskífur. Gauti hefur verið á flakki um landið í sumar og spilað á öllum helstu tónlistarhátíðum. Emmsjé Gauti verður á Túngötu 16.

The Vintage Caravan er Íslensk rokksveit sem var stofnuð árið 2006 þegar meðlimir sveitarinnar voru á tólfta ári. Sveitin er ein kraftmesta tónleikasveit landsins og spila venjulega allt uppí 100 tónleika á ári erlendis. Hljómsveitin gaf nýverið út sína fimmtu breiðskífu sem fékk frábærar viðtökur og lenti meðal annars á vinsældarlistum í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Swiss.
Á fimmtugsafmælis tónleikum Lifunar í Eldborg sá The Vintage Caravan um að flytja hljómplötuna og eldra efni með fyrrum meðlimum Trúbrots í Apríl 2022. Strákarnir eru þekktir fyrir góða tónleika og sviðsframkomu sína sem hægt verður að njóta á Melteig 8.

Magga Stína flytur lög og ljóð Megasar á Mánagötu 1 í Listasal Sossu. Snillingurinn Tómas Jónsson mun láta ljós sitt skína með Möggu Stínu á þessum tónleikum. Tónlist Megasar skipar einstakan sess í íslenskri þjóðarvitund og framlag hans til íslenskrar tónlistarsögu og textagerðar er í einu orði ómetanlegt. Á þessum tónleikum hljóma lög hans og ljóð af löngum og ævintýralega fjölbreyttum ferli – eins og Fílahirðinn frá Súrín, Gamli sorrí Gráni, Tvær stjörnur, auk þess sem flutt verða lög Megasar við nokkra Passíusálma Hallgríms Péturssonar.

Sverrir Bergmann og Halldór Gunnar hafa sameinað tónlistarhæfileika sína í nær einn og hálfan áratug. Þeir munu leika og syngja eigin lög í bland við ábreiður á pallinum á Brunnstíg 3.

Eftir miklar jarðhræringar á suðvesturhorninu bendir allt til þess að gosstöðin Æla sé að fara að láta á sér kræla. Margir óttast afleiðingarnar á meðan aðrir eru fullir tilhlökkunar og óska eftir frekari virkni.
Gosstöðin Æla var mjög virk á árunum 2005 - 2010. Þá lagðist hún í dvala en gaus upp með látum árið 2015 og gaf út þessa erfiðu aðra plötu sem enginn var að bíða eftir. Hún heitir Vettlingatök en frumskífa Ælu kom út árið 2006 og ber nafnið "Sýnið tillitssemi, ég er frávik".
Sveitin spilar grallarapönk í sturtu stereói og er þekkt fyrir kraftmikinn flutning á tónleikum. Æla telur í á Melteig 16.
 
Hreimur Örn Heimisson gerir upp tónlistarferil sinn frá '97-'22 á órafmögnuðum tónleikum á planinu á Íshússtíg 14.
Góðar sögur og góð tónlist. Lífið er yndislegt!

Á Mánagötu 11 mun hljómsveitin Lizt spila en hún hefur undanfarin ár vakið athygli og lof fyrir frábæran flutning á tónlist meistara David Bowie. Lizt hefur haldið Bowie tónleika víðsvegar um land undanfarin misseri við frábærar móttökur. Auk tónlistar Bowies er hljómsveitin með fjöldan allan af frábærri ,,eightis" tónlist á efnisskrá sinni. Hljómsveitina skipa Róbert Marshall, Þór Freysson, Hersir Sigurgeirsson, Gunz A La Tomm og Kristinn Gallagher.
Deila þessum viðburði

Svipaðir viðburðir

miðvikudagur 31. ágúst
Hjallavegur 2, Ytri-Njarðvík, Reykjanesbær, Iceland
föstudagur 2. september
föstudagur 2. september
kl. 18:00-22:00
Hafnargata 30, á mótum Hafnargötu og Tjarnargötu
3.- 4. september
Duusgata 5, Reykjanesbær, Iceland
laugardagur 3. september
kl. 14:30-17:30
Duusgata 2
laugardagur 3. september
kl. 15:00-16:00
Bókasafn Reykjanesbæjar