
Styrktarsamningar við aðalstyrktaraðila Ljósanætur 2025, svokallaða Ljósbera voru undirritaðir í vikunni. Hátíðin verður haldin í 24. sinn dagana 4.–7. september og undirbúningur er í fullum gangi.
Í ár taka á sjötta tug fyrirtækja þátt í að styðja hátíðina með fjárhagslegu framlagi eða þjónustu – og enn bætist í hópinn. Ljóst er að án öflugs stuðnings atvinnulífsins væri ekki hægt að halda Ljósanótt með jafn kröftugum hætti og raun ber vitni.
„Það er ómetanlegt þegar fyrirtæki á svæðinu láta sig samfélagið varða,“ sagði Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, starfandi bæjarstjóri, við undirritunina. „Fjöldi íbúa starfar hjá þessum fyrirtækjum og sýnilegur stuðningur þeirra styrkir bæði traust og stolt starfsfólks. Það er alltaf ánægjulegt þegar allir leggja sitt af mörkum svo vel megi takast til.“
Ljósberar Ljósanætur 2025
Aðalstyrktaraðilar Ljósanætur – Ljósberarnir – eru í ár:
Landsbankinn, KEF Keflavíkurflugvöllur, Skólamatur, BUS4U,
Blue Car Rental, Nettó og GTS.
Með stuðningi sínum taka Ljósberarnir virkan þátt í að auðga bæjarlífið og styrkja um leið þá þætti sem eru órjúfanlegur hluti þess að skapa starfsmönnum og viðskiptavinum eftirsóknarvert umhverfi til að lifa og starfa í.
Hátíð með rætur og hefðir
Ljósanótt er menningar- og fjölskylduhátíð sem dregur nafn sitt af lýsingu á sjávarhömrunum „Berginu“ sem blasir við frá hátíðarsvæðinu. Lýsingin var afhjúpuð á fyrstu Ljósanóttinni árið 2000 og hefur allar götur síðan verið táknrænn hápunktur hátíðarinnar, ásamt stórtónleikum og flugeldasýningu á laugardagskvöldinu.
Á Ljósanótt er lögð áhersla á fjölbreyttar uppákomur frá fimmtudegi til sunnudags. Menning hefur verið rauður þráður hátíðarinnar frá upphafi – með tónlist og myndlist í fararbroddi – enda Reykjanesbær annálaður tónlistarbær.





