8. september 2025
Að halda utan um fjölskyldu- og menningarhátíð eins og Ljósanótt fyrir rúmlega 20 þúsund manna bæjarfélag og þúsundir gesta til viðbótar er ekki lítið verkefni. Fjöldi fólks leggur sitt af mörkum svo allt gangi sem best og því hefst undirbúningur mörgum mánuðum fyrir hátíðina. Í ár léku veðurguðirnir svo sannarlega við okkur, þótt nokkrar rigningardembur og sunnudagurinn minntu á að haustið væri á næsta leiti. Það breytti þó engu um þá frábæru stemningu sem ríkti í bænum, enda er það ekki veðrið sem ræður ferðinni heldur gleðin, samstaðan og viljinn til að skapa eftirminnilega upplifun fyrir alla, saman með ljós í hjarta. Það var ánægjulegt að sjá hversu margir nutu þess að taka þátt í fjölbreyttri dagskrá sem sameinar bæjarbúa og gesti í gleði og samstöðu ár hvert og þessi 24. hátíð var engin undantekning. Sérstaklega er ástæða til að fagna því að hátíðin gekk vel fyrir sig án alvarlegra atvika. Þar skipti undirbúningurinn miklu máli, ekki síst sú áhersla sem lögð var á forvarnir og uppbyggileg samskipti í aðdraganda hátíðarinnar. Slíkt starf er ómetanlegt og á sinn þátt í að skapa örugga og ánægjulega hátíð fyrir alla. Fyrir hönd Reykjanesbæjar vil ég færa öllum þeim sem komu að undirbúningi og framkvæmd hátíðarinnar hjartans þakkir, starfsfólki bæjarins, viðbragðsaðilum, listafólki, félagasamtökum, fyrirtækjum og styrktaraðilum. Síðast en ekki síst þakka ég ykkur, íbúum og gestum, sem fjölmenntuð á viðburði helgarinnar með bros á vör og gerðu hátíðina lifandi. Án ykkar væri engin Ljósanótt. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri