Viðburðir

new_icons
Kvöldstund með Marínu Ósk: Dægurlagaperlur af Reykjanesi

Reykjanesið hefur lengi verið eins konar draumaland tónlistarfólks, staður sem alið hefur af sér tónlistarmenn, konur og kvár sem sett hafa einstakan svip á íslenskt tónlistarlíf með lagasmíðum sínum og flutningi.


Söngkonan Marína Ósk Þórólfsdóttir, sem fædd er og uppalin í Keflavík, snýr aftur til heimahaga sinna og efnir til tónleika í Hljómahöll á Ljósanótt. Efnisskráin skartar lögum úr ríkum tónlistararfi Reykjanesbæjar, tónlist frá heimafólki á borð við Gunnar Þórðarson, Magnús Kjartansson, Shady Owens, Valdimar og Marínu sjálfa.


Menningararfurinn sem frá svæðinu kemur er stórríkur af fallegum sönglagaperlum og í undirbúningi tónleikanna hefur Marína kynnst lögunum náið með sínu eigin tónlistarhjarta.


Marína Ósk mun sjálf sjá um allan tónlistarflutning: syngja og leika undir á gítar og píanó. Lögin verða flutt í hennar eigin útsetningum og getum við því átt von á að heyra lögin sem okkur þykir öllum vænt um í glænýjum sparifötum. 

Tónleikarnir verða haldnir í Bergi í Hljómahöll Keflavíkur; heimili íslenska Rokksafnsins og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. VIðburðurinn nýtur styrks Menningarsjóðs Reykjanesbæjar.


Um Marínu Ósk

Marína Ósk er rísandi stjarna í íslensku tónlistarlífi. Hún hefur gefið út tvær sólóplötur og hlaut nýverið Íslensku tónlistarverðlaunin 2023 fyrir tónverk af nýjustu plötu sinni, One Evening in July, en tónlist hennar hefur verið streymt meira en milljón sinnum á streymisveitum. Hún vinnur um þessar mundir að næstu plötu sinni, ásamt því að koma fram á tónleikum og kenna söng við tónlistarskóla FÍH.

Miðasala

Dagsetning og tími

Sunnudagurinn 3. september
20:00 - 21:15

Staðsetning

Berg, Hljómahöll, Hjallavegur 2, Reykjanesbær, 260

Aðrir viðburðir

Share by: