Viðburðir

new_icons
Of ung fyrir krabbamein?

Ljósmyndasýning eftir Þórdísi Erlu Ágústsdóttur

Of ung fyrir krabbamein? Frásögn um baráttu Sóleyjar


Þórdís Erla ljósmyndari og Sóley Björg flugmaður og flugkennari hjá Atlanta, ættuð frá Suðurnesjunum, taka á móti ykkur á opnun ljósmyndasýningar sem hefur farið hringferð um Ísland og verður sýnd í síðasta skiptið á Ljósanótt! Ljósmyndasýningin varð til í samvinnu þeirra tveggja og Brakkasamtakanna. 


Sóley Björg Ingibergsdóttir greindist með brjóstakrabbamein aðeins 26 ára gömul. Sóleyju datt í hug að athuga hvort hún hefði BRCA2 meinvaldandi breytingu sem eykur líkur á krabbameini þegar Íslensk erfðagreining opnaði aðgang að þeim upplýsingum. Hún var 25 ára á þessum tíma og ekki þekkt áhætta um krabbamein í fjölskyldu Sóleyjar. Í kjölfar niðurstöðu greiningarinnar um að vera BRCA arfberi hélt Sóley að hún myndi byrja í reglulegu eftirliti en var sagt að hafa ekki áhyggjur og koma aftur eftir fimm ár. Tæpum tveimur árum síðar finnur Sóley Björg sjálf hnút í brjóstinu og greinist í kjölfarið með brjóstakrabbamein. Hún undirgengst lyfjameðferð, tvöfalt brjóstnám og geislameðferð. 


Ljósmyndasýningin er haldin til vitundarvakningar fyrir bæði almenning og þá sem ákveða umgjörð og stefnu heilbrigðiskerfisins fyrir fólk með meinvaldandi breytingu. Hér er fjallað um unga konu sem samkvæmt innsæi sínu fór í það að sækjast eftir athugun á því hvort hún væri með BRCA breytingu í geni og greinist í kjölfarið með krabbamein. Markmiðið með sýningunni er að vekja athygli á stöðu arfbera. Einnig að upplýsa og fræða og hvetja til áframhaldandi umræðu og rannsókna á sviðinu. Síðast en ekki síst er markmiðið að vekja athygli á arfgengum krabbameinum á Ísland og mikilvægi erfðaprófunar og þekkingu um breytingar sem valda aukinni áhættu. 


Myndefni ljósmynda sýningarinnar er dramatískt og það er ekki reynt að komast hjá því þar sem ætlunin er að undirstrika það hvernig lífið með BRCA getur umbylt lífi fólks. Sóley Björg er hugrökk ung kona sem er tilbúin til að segja og sýna sögu sína til að vekja athygli á þessu mikilvæga málefni.

Dagsetning og tími

Miðvikudagurinn 30. ágúst
18:00-20:00
Föstudagurinn 1. september
06:30-18:00
Laugardagurinn 2. september
09:00-16:00
Sunnudagurinn 3. september
09:00-18:00

Staðsetning

Sundmiðstöð/Vatnaveröld Sunnubraut 31, 230 Reykjanesbær

Aðrir viðburðir

Share by: