new_icons

Opnun tveggja sýninga hjá Listasafni Reykjanesbæjar
Listasafn Reykjanesbæjar opnar tvær sýningar á Ljósanótt, fimmtudaginn 4. september kl. 18:00. Í fremri sal opnar Hulduefni, einkasýning Vilhjálms Bergssonar (1937) frá Grindavík. Vilhjálmur er listamaður með ákveðna sýn og heildstætt ævistarf, þar sem hann var jafnan að vinna út frá því sem hann kallaði lífrænar víddir. Vilhjálmur stundaði nám í Handíða- og myndlistarskólanum frá 1951-1953. Haustið 1958 fór hann til Kaupmannahafnar og dvaldist næstu tvö árin við listnám og síðan var hann önnur tvö ár í París. Sýningarstjóri er Hanna Styrmisdóttir, sérfræðingur hjá Listasafni Reykjanesbæjar. Myndverk sýningarinnar eru valin úr nýlegri gjöf listamannsins til Listasafns Reykjanesbæjar, elstu verkin eru frá sjötta áratug síðustu aldar, allt til dagsins í dag. Þannig er Hulduefni, yfirlitssýning valdra myndverka frá ferli Vilhjálms Bergssonar. Í gluggasal opnar Heimsmynd, einkasýning Áka Guðna Gränz (1925-2014). Sýningarstjóri er Helga Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar. Myndverk sýningarinnar eru úr safneign Listasafns Reykjanesbæjar, ásamt verkum í eigu fjölskyldu listamannsins. Áki hefði orðið 100 ára á þessu ári og mun sýningin heiðra minningu listamannsins með völdu yfirliti á verkum hans. Áki var afkastamikill listmálari, myndhöggvari og hannaði ýmiskonar merki og fána m.a. bæjarmerki Njarðvíkur og merki Kvenfélags Njarðvíkur, Iðnaðarmannafélags Suðurnesja og fleiri. Áki tók virkan þátt í sveitarstjórnarmálum, kjörinn í hreppsnefnd Njarðvíkur árið 1970, var bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Njarðvík til 1986 og forseti bæjarstjórnar Njarðvíkur 1982-1986. Hann sat í stjórn Ungmennafélags Njarðvíkur, var stofnfélagi í Lionsklúbbi Njarðvíkur og einna af stofnendum Sjálfstæðisfélags Njarðvíkur. Áki sat í undirbúningsnefnd stofnunar félags Keflavíkurverktaka og var bæði meðstofnandi og í stjórn félags málaraverktaka í Keflavík. Sýningarnar munu standa til 4. janúar 2026. Hulduefni, einkasýning Vilhjálms Bergssonar er styrkt af Myndlistarsjóði. Heimsmynd, einkasýning Áka Guðna Gränz er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.

Dagsetning og tími

18:00 - 20:00

Staðsetning

Aðrir viðburðir