new_icons

Hulduefni - Vilhjálmur Bergsson

Listasafn Reykjanesbæjar opnar Hulduefni, einkasýningu Vilhjálms Bergssonar, á Ljósanótt, fimmtudaginn 4. september kl. 18:00 - 20:00. Sýningin mun standa til 4. janúar 2026.  


Hulduefni, einkasýning Vilhjálms Bergssonar opnar í fremri sal Listasafnsins. Nýverið barst Listasafni Reykjanesbæjar dýrmæt gjöf frá Vilhjálmi Bergssyni, myndlistarmanni. Í henni er að finna verk frá lokum sjötta áratugar síðustu aldar, fram á þriðja áratug þessarar aldar; nær sjötíu ár af samfelldri myndlistarsköpun Vilhjálms Bergssonar.  


Vilhjálmur Bergsson er fæddur í Grindavík 1937. Hann sótti myndlistarnám í Reykjavík á sjötta áratugnum og hélt að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík (1958) til Kaupmannahafnar þar sem hann hélt áfram myndlistarnámi (1958-1960). Þaðan lá leiðin til Parísar þar sem hann stundaði nám við Académie de la Grande Chaumière (1960-1962).  Vilhjálmur varð félagi í SÚM 1969 og formaður frá 1971-1972. Hann dvaldi í Kaupmannahöfn 1963-1966 og 1972-1977, Madrid 1967-1968 og í París 1977-1978. Frá 1983-2000 bjó Vilhjálmur og starfaði í Düsseldorf í Þýskalandi. Frá 2000-2024 var Vilhjálmur búsettur og starfaði í Grindavík og hefur nú aðsetur í Vík í Mýrdal.  


Vilhjálmur hefur haldið tugi einkasýninga á verkum sínum, m.a. í Gallerí SÚM, Norræna húsinu, Listasafni ASÍ, Listasafni Reykjavíkur og í Galerie AP, Kaupmannahöfn. Þá hefur hann tekið þátt í fjölda samsýninga á Íslandi, í Bandaríkjunum og Evrópu.  


Hanna Styrmisdóttir er sýningarstjóri Hulduefnis og tímabundið starfandi sérfræðingur í Listasafni Reykjanesbæjar. Áður hefur Hanna m.a. verið prófessor við myndlistardeild Listaháskóla Íslands, stýrt Listahátíð í Reykjavík og verið sýningarstjóri Íslenska skálans á Feneyjatvíæringnum í myndlist.   


Hulduefni, einkasýning Vilhjálms Bergssonar er styrkt af Myndlistarsjóði.

Dagsetning og tími

18:00 - 20:00
Föstudagurinn 5. september
12:00 - 18:00
Laugardagurinn 6. september
12:00 - 18:00
Sunnudagurinn 7. september
12:00 - 17:00

Staðsetning

Duus safnahús, Duusgata 2-8, 230 Reykjanesbær

Aðrir viðburðir