Sunnudaginn 7. september kl. 11 verður farin söguganga frá Duus safnahúsum. Viðburðurinn hefst á erindi í Bíósal Duus safnahúsa og í kjölfarið verður farið í vettvangsferð í næsta nágrenni safnahúsanna. Boðið verður upp á kaffi og meðlæti.
Strand seglskipsins Jamestown við Hafnir á Suðurnesjum árið 1881 hafði mikil áhrif á efnahag og ekki síst á byggingasögu á Suðurnesjum og víðar. Þar skipti farmur skipsins sköpum en það flutti 100.000 tilsniðna viðarplanka. Í erindinu verður fjallað um strandið og sagt frá nokkrum húsum sem byggð voru úr timbrinu í farmi skipsins og viðum skipsins sjálfs. Stiklað verður á stóru um þann stórviðburð þegar risastórt þrímastra seglskip rak á land við Hafnir og strandaði á skeri við Hestaklett.
Að erindinu loknu verður farið í vettvangsferð ( létta göngu) um nánasta umhverfi að húsum sem byggð eru að hluta eða öllu leyti úr timbri úr Jamestown og saga þeirra sögð.
Leiðsögumaður er Helga Margrét Guðmundsdóttir, formaður áhugahóps um strandið. Hópurinn var stofnaður fyrir tæpum áratug og hefur safnað heimildum um strandið og útbúið skrá yfir hús og muni sem talin eru tengjast strandinu.